Íslenskukennsla fyrir nemendur af erlendum uppruna

,,Ísland á eftir að vakna til nægilegrar vitundar um hversu mikið hagsmunamál hér er á ferðinni‘‘

Hvernig eru skólarnir í stakk búnir til að mæta þörfum nemenda af erlendum uppruna og hvernig stendur Ísland í samanburði við hin Norðurlöndin, að þessu leitinu til?

Áður en ég svara þessum spurningum langar mig til að setja málið í samhengi við þau gæði sem felast í því að búa í fjölmenningarlegu samfélagi.

Það þarf ekki annað en að rölta niður í bæ til að fyllast þakklæti fyrir þá menningarstrauma sem kynnast má og njóta á hverju veitingahúsinu á fætur öðru.

Í miðbæ Akureyrar er til að mynda indverskt veitingahús í hæsta gæðaflokki sem hefur notið margvíslegra viðurkenninga. Skammt frá er sýrlenskur kebab staður þar sem enginn fær númer heldur eru allir inntir eftir nafni. Þar má njóta þess að horfa á austurlensk tónlistarmyndbönd á meðan beðið er eftir að starfsmaður kalli nafnið þitt með sýrlenskum hreim. Eftir örfá skipti er þér heilsað með nafni um leið og þú birtist í dyrunum.

En gott fjölmenningarlegt samfélag snýst ekki aðeins um að njóta góðs af menningu, gestrisni og þjónustu þeirra sem hingað flytjast, það snýst einnig um að veita nýjum íbúum þá þjónustu sem þeir þurfa. Góð íslenskukennsla er grundvallaratriði í þessu sambandi.

Færni í íslensku hefur forspárgildi um gengi í öðru námi hér á landi

Á meðan foreldrar af erlendum uppruna vinna og þú hleypur inn á matsölustaðinn þeirra í hádegishléinu til að gúffa í þig exótískum rétti, sitja börnin þín og börnin þeirra einhvers staðar á skólabekk og undirbúa sig undir lífið. Munurinn er sá að börn af erlendum uppruna standa oft á tíðum ekki jafnfætis jafnöldrum sínum í íslensku. Það er mjög slæmt mál vegna þess að færni í íslensku hefur forspárgildi um gengi í öðru námi hér á landi og nám er til þess fallið að styrkja stöðu fólks.

Einn daginn þegar ég var að hugleiða þetta, með munninn fullan af indverskum kjúklingarétti, kúfaðan gaffal af hrísgrjónum í annarri og naan brauð í hinni, ákvað ég að gera athugun á stöðu þessara mála í Verkmenntaskólanum á Akureyri, þar sem ég stundaði æfingakennslu.

Þegar ég spurðist fyrir kom í ljós að einn kennara skólans hefur sérhæft sig í íslenskukennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna. Ég setti mig í samband við þennan kennara en ræddi einnig við fleiri kennara. Þá las ég mér til um metnaðarfulla móttökuáætlun Verkmenntaskólans fyrir þennan nemendahóp.

Ekki bara hagsmunir nemendanna heldur þjóðfélagsins í heild

Eitt af því sem kom fram var að Ísland stendur ekki jafnfætis hinum Norðurlöndunum í þessum málaflokki. Að mati kennara skólans á Ísland enn eftir að vakna til vitundar um hversu mikið hagsmunamál er hér á ferðinni, ekki aðeins fyrir nemendurna sjálfa heldur þjóðfélagið allt.

Annað áhugavert sem kom fram var að það er mikilvægt að nemendur geti tengt íslensk orð við eitthvað sem fyrir er í þeirra hugmyndaheimi. Þess vegna sé nauðsynlegt að nemendur fái móðurmálskennslu samhliða íslenskukennslunni. Þá kom fram að nemendur hafa sjálfir kallað eftir stuðningi við að tileinka sér fagorð þeirra sérgreina sem þeir leggja stund á, ekki síður en kennslu í almennari orðaforða.

,,Á endanum er þetta spurning um að einhver kennari segi hingað og ekki lengra‘‘

Niðurstaðan er sú að þörfin á íslenskukennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna er mun meiri en skólarnir ná að sinna. ,,Á endanum er þetta spurning um að kennarar segi hingað og ekki lengra‘‘, sagði einn af kennurum skólans. Fyrr fái skólarnir ekki nægilegt fjármagn til að sinna þessari grundvallarþjónustu þannig að sómi sé að.

#Íslenskukennsla
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir
31. ágúst 2020