Viðtal við Kristinn Ágúst Friðfinnsson: ,,Þegar þeir fréttu að ég er frá Íslandi þá myndaðist samstaða á milli okkar innflytjendanna‘‘

Kristinn Ágúst Friðfinnsson

Kristinn bjó í Danmörku á námsárum sínum í sáttamiðlun. Meistararitgerð hans fjallar um menningarmun og mikilvægi þess að skilja menningu samborgara sinna. Viðtalið var tekið á meðan Kristinn bjó í Danmörku

Hvernig upplifir þú Danmörk sem fjölmenningarsamfélag?

Ég upplifi að Danir séu á heildina litið mjög jákvæðir gagnvart fjölmenningarsamfélaginu. Mér finnst að stjórnvöld hafi sett sér að vera jákvæð og dönsk menning er svo sterk að hún virðist lifa innan um aðra menningarstrauma sem eru hérna. Þetta blandast ekki og verður ein heild heldur virðist þetta gera sig þannig að önnur menning sem er mjög frábrugðin aðskilur sig svolítið frá dönsku menningunni og fólk lifir svolítið í sér samfélögum. Mér finnst danska menningin koma vel og sterkt í gegn. Það er hægt að orða það þannig. Sérstaklega þegar komið er út fyrir borgirnar.

Telurðu að það sé eitthvað sem Íslendingar geti lært af Dönum í þessum efnum?

Fjölmenningarsamfélagið er bara staðreynd sem við getum ekki barist gegn. Samgöngur eru orðnar svo góðar og landamæri eru að víkja. Þegar ég tala um samgöngur þá á ég líka við útvarp, sjónvarp, netið og allt þetta sem víkkar sýn okkar og dýpkar þekkinguna. Þetta eru bara staðreyndir nútímans. Samgöngur í víðasta skilningi þess orðs eru frumhreyfiafl þeirra breytinga sem heimurinn er að ganga í gegnum núna. Þannig að ég held að það sé eðlilegast að við viðurkennum staðreyndir. Allar tilraunir til að berjast gegn þróuninni held ég að séu fyrirfram dæmdar til að mistakast. Þannig að ég held að það sé bara farsælast að fara þessa dönsku leið, að vera jákvæður gagnvart hlutunum eins og þeir eru. En það þarf t.d. öflugra eftirlit með einelti því það koma inn í skólana börn sem eru með aðra siði, venjur, þarfir og hagsmuni.

Hafa skoðanir þínar á fjölmenningu breyst eftir að þú fluttir til Danmerkur?

Ég hef afslappaðri afstöðu gagnvart fjölmenningu. Miklu jákvæðari og er tilbúinn að viðurkenna staðreyndir. Ég er ekki frá því að það geti í framtíðinni skapast ný siðfræði í fjölmenningarsamfélögum og það er ekki útilokað að trúarstofnanir breytist eitthvað. Það er ekki útilokað. Mér sýnist til dæmis að kirkjan sé að verða opin fyrir því að hleypa inn og skapa vettvang fyrir sameiginlega upplifun hins heilaga. Dómkirkjan hérna í Kaupmannahöfn er til dæmis byrjuð að bjóða upp á hugljómunartónlist eitt kvöld í viku. Þá er hægt að fara og sitja í kirkjunni og hlusta á tónlist sem er á mörkum þess að vera tónlist í hefðbundnum skilningi, heldur blíður og góður tónvefur, sem er rammi fyrir helgun og bæn. Maður getur stundað hvort sem er bæn eða íhugun í samfélagi þar sem enginn þarf að sýna skírteini eða gera grein fyrir sér. Þetta nefni ég sem dæmi um hægfara opnun og þröskuldalækkun samfélags í aðlögun og leit að farsælum skilyrðum fyrir fordómalaust og gott mannlíf.

Finnurðu fyrir fordómum sem Íslendingur í Danmörku?

Þessari spurningu er ekki hægt að svara alfarið já eða nei. Að mestu leiti nei. Ég hef stundum átt svolítið erfitt með það í háskólanum að fá ákveðin svör og svona. En ég held að það sé kannski bara vegna þess að kerfið er að aðlaga sig nýjum aðstæðum. En merkilegt með leigubílana. Það eru oft múslimar sem aka þeim. Ég finn stundum svona samstöðu með þeim. þegar þeir vita að ég er frá Íslandi þá finnst okkur eins og við séum félagar, við innflytjendurnir. En svo finn ég bara þægilegt andrúmsloft hjá dönskum leigubílstjórum.

#Íslendingar
#Danmörk
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir
12. júlí 2019