Skólakerfið og fjölmenning

Mikið brottfall nemenda af erlendum uppruna er áhyggjuefni

Móðurmálið er undirstaða annars náms

Nokkur atriði hafa verið skilgreind sem mikilvæg nemendum af erlendum uppruna svo þeir nái með góðu móti að fóta sig í skólakerfinu.

Í fyrsta lagi hefur komið í ljós að móðurmálskunnátta nemenda með erlendan bakgrunn hefur forspárgildi um það hversu vel þeim tekst að tileinka sér nýtt tungumál. Þetta stafar af því að fólk hugsar oft á tíðum á sínu móðurmáli. Móðurmálið virkar því sem undirstaða annars náms. Þess vegna hafa fræðimenn lagt áherslu á að nýir íbúar fái stuðning til að viðhaldi móðurmáli sínu.

Í öðru lagi skiptir máli að nýir íbúar læri ráðandi tungumál nýja landsins. Grunnskólar þurfa því að leggja áherslu á öfluga íslenskukennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna (Birna Arnbjörnsdóttir).

Útlendingum er svarað á ensku jafnvel þegar þeir tala íslensku

Í þessu sambandi er vert að nefna að ég tók ítarlegt viðtal við Salmann Tamimi á dögunum (sjá tengil á forsíðunni). Eitt af því sem hann talaði um eftir viðtalið var að hann er stundum ávarpaður á ensku í verslunum og jafnvel þegar hann svarar á íslensku, þá er haldið áfram að tala á ensku við hann. Þennan vana þarf að uppræta í íslensku samfélagi.

Á sama hátt og það er mikilvægt fyrir nýja íbúa að læra tungumál nýja landsins og ýmsan fróðleik um landið er mikilvægt að samfélagið geri ráðstafanir til að endurspegla fjölbreytni mannlífsins. Vegna þess að, eins og Salmann segir í viðtalinu, hafa allir þörf á að finna að þeir séu hluti af samfélaginu.

Hvort er betri heilsa: ,,sæll og blessaður‘‘ eða ,,hvaðan ertu?‘‘

Sem betur fer, eins og Kristín Loftsdóttir hefur bent á, hafa íslenskir námsbókahöfundar sýnt metnað til að endurspegla fjölbreytni samfélagsins í máli og myndum nýlegra námsbóka. Þetta er liður í því að allir finni að þeir séu hluti af samfélaginu. En betur má ef duga skal. Til dæmis, eins og Salmann bendir á, í stað þess að fyrsta spurning til litaðrar manneskju sé ,,Hvaðan ertu?‘‘ væri ef til vill meira viðeigandi að segja ,,Sæll og blessaður hvað segirðu?‘‘

Börn af erlendum uppruna þurfa meiri aðstoð í skólanum en þau eru að fá

Salmann og Kristinn Ágúst Friðfinnsson, (sem einnig er í viðtali á þessari síðu), tala báðir um að huga þurfi vel að börnum af erlendum uppruna svo þau fái að komast inn í samfélagið. Þeim líður oft á tíðum ekki nógu vel í skólanum eins og Salmann talar um. Þau fá ekki í öllum tilvikum þá aðstoð í skólanum sem þau þurfa til að geta fótað sig á jafnréttisgrundvelli innan skólakerfisins og þar með innan samfélagsins. Mikið brottnám þeirra úr skóla eftir skyldunámið er áhyggjuefni, vegna þess að við viljum að öll börn eigi möguleika á bjartri framtíð, þar sem hæfileikar þeirra fá að njóta sín.

#íslenska
#móðurmál
#skólakerfið
Melkorka Mjöll Kristinsdóttir
12. júlí 2019